Brotið blað í sögunni - 2017 og 2016 Polaris IQ600 Racer

Cobolt Verkstæði er ennþá að halda upp á jólin, og er ennþá að smala fyrirferðarmestu pökkunum í hús. Á dögunum tókum við á móti tveimur pökkum af veglegri gerðinni, og var þar um að ræða tvo eintök af keppnissleðum frá Polaris. Tækin ganga undir nafninu Polaris IQ 600 Racer. 

Um er að ræða einn splúnkunýjan 2017 IQR sem kemur með breyttu útliti. Er hér um fyrsta 2017 Polaris keppnisleðann að ræða sem lendir á klakanum. Flestir eru sammála um að þar sé um mjög vel heppnaðar breytingar að ræða. Í stórum dráttum hefur IQR sleðinn verið útlitslega óbreyttur síðan árið 2005. Sé spekingunum trúað, þá stafar það aðallega af því hversu vel það boddý hefur reynst. En 2017 var árið sem menn blésu í seglin og komu með þessa nýju útfærslu (opinberlega) af IQR sleðanum. Glæsilegt stykki, og við Cobolt menn erum montnir af því að eiga heiðurinn á komu hans. 

2017 sleðinn mun verða til sölu von bráðar, bendum lesendum á "Til sölu"  hlekkinn á síðunni fyrir nánari upplýsingar um sleðann. 

2017 sleðanum til samlætist kom 2016 IQR 600cc sem er fullgróin keppnissleði. Þar er augljóslega um að ræða síðasta módelið af eldra útlitinu sem er mörgum ansi kært. 2016 sleðinn var gagngert fluttur inn fyrir okkar mann, Valgeir Huga Halldórsson, og hefur hann þegar fengið góssið afhent. 

Koma þessara sleða er sérstaklega skemmtileg í ljósi þess að innflutningur á þessum sleðum hefur nánast ekki verið til staðar síðan fyrir hrunárin. Frá 2005 til og með 2008 voru árlega fluttir inn allnokkrir slíkir sleðar, en eftir '08-'09 seasonið þá lagðist innflutningur alveg af. Nokkrir athafnamenn fluttu reyndar inn þrjú stykki af 2012 IQR 600 sleðum það sama ár og lifa þeir góðu lífi enn. Þetta eru því fyrstu Polaris keppnissleðarnir sem koma hingað til lands síðan þá. Ný, og yngri kynslóð vélsleðamanna hefur verið að rísa á undanförnum árum og bindum við miklar vonir við þá ökumenn í samhengi við að rífa upp sno-cross menninguna sem eitt sinn lifði góðu lífi hér á Íslandi. Slíkt skapar þörfina á fleiri keppnissleðum og víkkar út sleðamenningu landsins, sem hefur verið ansi einsleit undanfarin ár.

IMG_7023.JPG

Cobolt Verkstæði segir sem sagt tíðarfarinu stríð á hendur og hvetjum lesendur til að gera slíkt hið sama. Bjóðum alla velkomna til að berja sleðana augum og óskum keyrurum farsæls vetrar. 

Snjórinn kominn og sleðarnir birtast

Það var þá loksins að snjórinn lét sjá sig hér norðan heiða, og við þau tækifæri birtast gjarnan sleðamenn upp úr öllum gjótum. Sparihluti verkstæðisins er undirlagður hinum ýmsustu græjum og partýið er greinilega að byrja. 

Þrátt fyrir að snjórinn hafi látið bíða svolítið eftir sér miðað við oft áður, þá er allt útlit fyrir að 2017 sleðaseason-ið verði í meira lagi álitlegt. Sjaldan, ef nokkurn tíman hefur sala nýrra vélsleða náð þeim hæðum sem hún er í núna. Ennfremur hefur verðþróun í geiranum verið í jákvæða átt og miklar lækkanir átt sér stað. 

Nýji Ski-Doo Gen4 850cc sleðinn hefur verið fyrirferðarmikill í umræðunni og allnokkur eintök hafa ratað á Norðurland. Cobolt hefur metnað fyrir að geta liðsinnt eigendum allra tegunda vélsleða og höfum m.a flutt inn demparakitt og pústkúta fyrir téðan Ski-Doo sleða. Eigendur sleðanna eru nú í startholunum við að prufukeyra græjurnar. Við erum ekki minna spenntir en næsti maður í að sjá hvernig þessir sleðar reynast. 

 

Jólahlaðborð í hjarta Tröllaskagans.

Starfsmenn og makar brugðu sér á jólahlaðborð á dögunum, eftir miklar tarnir að undaförnu. Hótel Sigló og veitingastaðurinn Rauðka á Siglufirði urðu fyrir valinu. 

Óhætt er að mæla með ofangreindum stöðum til slíkra hátíðarbrigða þar sem öll aðstaða og þjónusta er til fyrirmyndar. Vel mætti halda því fram að Tröllaskaginn hafi löngum verið mekka mótorsportsins, þá sérstaklega vélsleðasportsins, á Norðurlandi. Því mætti færa góð rök fyrir því að vélsleðamaðurinn eigi hvergi betur heima en í umhverfi Tröllaskagans. 

Starfsmenn Cobolt þakka fyrir sig, og mæla sumsé eindregið með Hótel Sigló og tilheyrandi stöðum. 

Polaris RZR 900XP - Túrbóísetning

Um þessar mundir er einkar skemmtilegt verkefni í gangi hjá Cobolt. Unnið er að ísetningu túrbínu í Polaris RZR 900 buggýbíl. Bíllinn er að upplagi 2011 módel af Polaris RZR 900XP og skilar í sinni orginal útfærslu 88hp samkvæmt framleiðanda. 900 RZR bíllinn þótti myndarleg bylting á sínum tíma og hafði eiginleika langt umfram hinn eldri 800cc bíl sem fyrst var kynntur árið 2008, þá með sömu vél og þekkst hafði í Polaris fjórhjólum í þónokkur ár. 

900XP bílarnir þessir hafa löngum haft það orð á sér að vera sérstaklega skemmtilegir og liprir, en í nútímasamburði þykir mörgum áðurnefnd hestaflatala á mörkum þess að vera fullnægjandi. En öll vandamál hafa sínar lausnir, og með ísetningu á umræddri túrbínu getur bíllinn skilað 150hp! Það er því óhætt að segja að bylting sé framundan hjá eiganda bílsins. Um er að ræða túrbínu frá MCX framleiðandanum sem fyrir löngu hefur sannað sig bæði í vélsleðum og buggýbílum. 

Við óskum eiganda til hamingju með þennan gjörning, og munum setja inn fleiri myndir frá verkefninu von bráðar.  

Nýtt sexhjól með breytingapakka afhent.

Haustið er líklegast sá tími þar sem flest fjórhjól er tekin úr skúrum eða af hlaði og brúkuð. Ár eftir ár sanna þessir vinnuhestar gildi sitt þegar kemur að göngum, og svo er jú er til dágóður hópur manna sem nota þessi verkfæri einungis til yndisauka, sumar vetur vor og haust. 

Þarna inn á milli er svo til þriðji hópurinn sem brúkar þessar græjur sem björgunartæki. Þau eru líklega ófá skiptin sem það hefur komið sér vel að hafa fullbúið fjór/sexhjól á kantinum þegar þörf krefur. 

Cobolt er nú að afhenda veglegt Polaris sexhjól til góðs viðskiptavinar sem státar af öllu því besta sem fyrirfinnst í þessum geira í dag. Hjólið er komið einn öflugasta dekkjagang sem þekkist hérlendis og er ríkulega búið aukahlutum. Við óskum Björgunarsveitinni í Hrísey til hamingju með sexhjólið.  

Fjórhjól komið í spariskóna.

Lengi má bæta það sem gott er, og hér er nýtt fjórhjól frá okkur komið á hraustan dekkjagang sem situr á breyttum/breikkuðum stálfelgum. 

Dekkin sem um ræðir eru Bighorn 26x12x12, jafnbreið allan hringinn. Til að ná hámarksgetum úr slíkum hjólbörðum þarf felga að vera í viðeigandi breidd. Með auknum vinsældum snjóaksturs á fjórhjólum og buggý bílum hefur velta með slík dekk og felgur aukist verulega, og hér er kristaltært dæmi um "að fara alla leið". 

Cobolt getur séð um felgubreytingar og útvegað bestu dekkin markaðnum fyrir allar týpur fjórhjóla. 

Flott verkefni

Cobolt menn hafa um árabil tekið að sér að filma rúður, einkum í einkabíla, en þó hafa inn á milli læðst bátarúður, sturtugler og fleira. Nýverið bættust svo dráttarvélar í þennan hóp, þegar fyrsta flokks töffararnir frá Finn ehf mættu með Fendt vél í filmun. Talið er að filmunin þjóni bæði praktískum og fegrandi tilgangi, því eins og alkunna er þá skín alltaf sólin á Akureyri. 

 

Flott sleðaspyrna um liðna helgi.

Blásið var til vélsleðaspyrnu í nágrenni Grenivíkur um liðna helgi í fádæma góðu veðri. Nokkuð er liðið síðan "formleg" keppni í einhverju vélsleðatengdu var haldin, og er skemmst frá því að segja að keppnin tókst einkar vel. Mæting var mjög góð, bæði meðal keppenda og áhorfenda, veðrið lék við viðstadda og furðulega fá "áföll" urðu á græjunum sem mættar voru til þáttöku.

Á ráslínu mátti sjá rjómann af íslenskri vélsleðamenningu. Elsti sleði sem mættur var til leiks var Arctic Cat Thundercat, sennilega um 2000 módel. Í hinn endann mátti sjá splúnkunýjar græjar frá nánast öllum framleiðendum, en þónokkrir 2016 Polaris voru á svæðinu, sem og nýr Lynx í eigu Einars Sigurðssonar, nýr Ski Doo Freeride í höndum Spjóta frá Húsavík og nýr Arctic Cat HCR. 

Ótvíræðir sigurvegarar spyrnurnar voru samt sem áður fjórgengis Yamaha turbó sleðarnir frægu. Grétar Óli Ingþórsson sigldi sínum Yamma til sigurs í opna flokknum, en sá flokkur innihélt m.a tvö stk  Arctic Cat Prolite 940cc, Polaris IQR 1200cc triple, Arctic Cat M8 Turbó og fleiri bitmiklar græjur. 

Þetta var flott framtak og eiga stuðningsaðilar spyrnunnar lof skilið fyrir ómakið. Má þar fremsta í flokki nefna Kontorinn Veitingastað á Grenivík, meðlimi TEAM 23 og KKA. Meira svona takk.