Polaris RZR 900XP - Túrbóísetning

Um þessar mundir er einkar skemmtilegt verkefni í gangi hjá Cobolt. Unnið er að ísetningu túrbínu í Polaris RZR 900 buggýbíl. Bíllinn er að upplagi 2011 módel af Polaris RZR 900XP og skilar í sinni orginal útfærslu 88hp samkvæmt framleiðanda. 900 RZR bíllinn þótti myndarleg bylting á sínum tíma og hafði eiginleika langt umfram hinn eldri 800cc bíl sem fyrst var kynntur árið 2008, þá með sömu vél og þekkst hafði í Polaris fjórhjólum í þónokkur ár. 

900XP bílarnir þessir hafa löngum haft það orð á sér að vera sérstaklega skemmtilegir og liprir, en í nútímasamburði þykir mörgum áðurnefnd hestaflatala á mörkum þess að vera fullnægjandi. En öll vandamál hafa sínar lausnir, og með ísetningu á umræddri túrbínu getur bíllinn skilað 150hp! Það er því óhætt að segja að bylting sé framundan hjá eiganda bílsins. Um er að ræða túrbínu frá MCX framleiðandanum sem fyrir löngu hefur sannað sig bæði í vélsleðum og buggýbílum. 

Við óskum eiganda til hamingju með þennan gjörning, og munum setja inn fleiri myndir frá verkefninu von bráðar.