Brotið blað í sögunni - 2017 og 2016 Polaris IQ600 Racer

Cobolt Verkstæði er ennþá að halda upp á jólin, og er ennþá að smala fyrirferðarmestu pökkunum í hús. Á dögunum tókum við á móti tveimur pökkum af veglegri gerðinni, og var þar um að ræða tvo eintök af keppnissleðum frá Polaris. Tækin ganga undir nafninu Polaris IQ 600 Racer. 

Um er að ræða einn splúnkunýjan 2017 IQR sem kemur með breyttu útliti. Er hér um fyrsta 2017 Polaris keppnisleðann að ræða sem lendir á klakanum. Flestir eru sammála um að þar sé um mjög vel heppnaðar breytingar að ræða. Í stórum dráttum hefur IQR sleðinn verið útlitslega óbreyttur síðan árið 2005. Sé spekingunum trúað, þá stafar það aðallega af því hversu vel það boddý hefur reynst. En 2017 var árið sem menn blésu í seglin og komu með þessa nýju útfærslu (opinberlega) af IQR sleðanum. Glæsilegt stykki, og við Cobolt menn erum montnir af því að eiga heiðurinn á komu hans. 

2017 sleðinn mun verða til sölu von bráðar, bendum lesendum á "Til sölu"  hlekkinn á síðunni fyrir nánari upplýsingar um sleðann. 

2017 sleðanum til samlætist kom 2016 IQR 600cc sem er fullgróin keppnissleði. Þar er augljóslega um að ræða síðasta módelið af eldra útlitinu sem er mörgum ansi kært. 2016 sleðinn var gagngert fluttur inn fyrir okkar mann, Valgeir Huga Halldórsson, og hefur hann þegar fengið góssið afhent. 

Koma þessara sleða er sérstaklega skemmtileg í ljósi þess að innflutningur á þessum sleðum hefur nánast ekki verið til staðar síðan fyrir hrunárin. Frá 2005 til og með 2008 voru árlega fluttir inn allnokkrir slíkir sleðar, en eftir '08-'09 seasonið þá lagðist innflutningur alveg af. Nokkrir athafnamenn fluttu reyndar inn þrjú stykki af 2012 IQR 600 sleðum það sama ár og lifa þeir góðu lífi enn. Þetta eru því fyrstu Polaris keppnissleðarnir sem koma hingað til lands síðan þá. Ný, og yngri kynslóð vélsleðamanna hefur verið að rísa á undanförnum árum og bindum við miklar vonir við þá ökumenn í samhengi við að rífa upp sno-cross menninguna sem eitt sinn lifði góðu lífi hér á Íslandi. Slíkt skapar þörfina á fleiri keppnissleðum og víkkar út sleðamenningu landsins, sem hefur verið ansi einsleit undanfarin ár.

IMG_7023.JPG

Cobolt Verkstæði segir sem sagt tíðarfarinu stríð á hendur og hvetjum lesendur til að gera slíkt hið sama. Bjóðum alla velkomna til að berja sleðana augum og óskum keyrurum farsæls vetrar.